Ný rannsókn bendir til þess að það að bera laun sín stöðugt saman við laun annarra fjölskyldumeðlima og vina er öruggasta leiðin til þess að verða óhamingjusamur. Rannsóknin sem unnin var á vegum viðskiptaháskóla í París náði til 19 þúsund íbúa 24 Evrópulanda. Samkvæmt henni sögðust 75% aðspurðra telja mikilvægt að bera saman laun sín við laun annarra.
Hins vegar kom í ljós að þeir sem báru saman laun sín og annarra voru yfirleitt óánægðari, sérstaklega ef þeir báru laun sín saman við vini og fjölskyldumeðlimi í stað þess að bera þau saman við laun vinnufélaga. Jafnframt kom í ljós að launasamanburður hafði neikvæðustu áhrifin á þá sem þénuðu lítið.
Rannsóknarniðurstöðurnar benda til þess að því uppteknara sem fólk er að launasamanburði þeim meiri líkur eru á því að það hafi lágt sjálfsmat, minni lífsánægju og þjáðist af þunglyndi. Enginn mælanlegur munur var á afstöðu karla og kvenna þegar kom að launasamanburðinum.
Þeir svarendur sem aðeins báru saman laun sín við laun samstarfsfélaga urðu fyrir minnstum neikvæðum áhrifum af slíkum samanburði.
Rannsóknin leiddi í ljós að fólk sem býr í fátækari löndum er líklegra til þess að huga að launasamanburði en fólk í ríkari löndum. Þegar aðeins var horft til hvers lands fyrir sig kom einnig í ljós að fólk í fátækari lögum samfélagsins var líklega til þess að huga að launasamanburði en fólk í ríkari lögum samfélagsins.
„Fyrirfram hefði ég haldið að efnaðra fólk væri uppteknara að launum sínum, þar sem fátækt fólk væri of upptekið af því að hafa einfaldlega til hnífs og skeiðar. En það reyndist ekki raunin,“ segir Andrew Clark prófessor og stjórnandi rannsóknarinnar.
Cary Cooper sálfræðiprófessor við Lancaster University Management School, bendir á að þeir sem stöðugt þurfa að bera sig saman við annað fólk séu oftar en ekki óöruggari með sig.
„Við þurfum hins vegar að vita hvað kemur fyrst. Eru þeir sem uppteknastir eru af launasamanburði fólk sem ávallt sér glasið sem verandi hálf tómt eða er það samanburðurinn sjálfur sem gerir þetta fólk óhamingjusamt?“ Tekur hann fram að samanburður við skólafélaga og háskólavini vera mest mannskemmandi.
„Þegar maður horfir til samanburðar við samstarfsfélaga þá er hægt að segja að um raunhæfan samanburð sé að ræða. En þegar fólk fer að bera sig saman við fyrrverandi skólafélaga sem hafði sömu tækifæri og maður sjálfur í lífinu og hefur kannski vegnað mun betur en maður sjálfur þá fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér hvar maður hafi sjálfur klikkað og hvort maður sé ekki nógu góður.“