Biskupinn í Phoenix í Bandaríkjunum, Thomas Olmstead, hefur ákveðið að bannfæra nunnuna Margaret McBride vegna þess að hún aðstoðaði alvarlega veika konu við að komast í fóstureyðingu í því skyni að bjarga lífi konunnar.
Margaret McBride sat í stjórn St. Josephs spítalans í Phoenix, sem er einn stærsti spítalinn í borginni. Einn af yfirlæknum spítalans hefur í fjölmiðlum lýst McBride sem samvisku spítalans. „Hún var óþreytandi í vinnu sinni og hugsaði aldrei um eigin hag. Hún bæði talaði fyrir og sýndi í verki umhyggju sína gagnvart sjúklingum,“ skrifar John Garvie.
Ástæðu bannfæringar biskups má rekja til þess að í desember sl. þurfti 27 ára gömul kona að leggjast inn á spítalann. Hún var ólétt af fimmta barni og var komin 11 vikur á leið, en fyrir átti hún fjögur ungabörn. Þegar á spítalann var komið kom í ljós að blóðþrýstingurinn í lungum hennar var alltof hár og hjarta hennar var undir svo miklu álagi sökum þessa að miklar líkur voru taldar á því að líf hennar væri í hættu. Blóðþrýstingsvandamálið mátti rekja til óléttu hennar og komust læknar spítalans að þeirri niðurstöðu að væri fóstrið ekki fjarlægt umsvifalaust þá myndi konan deyja.
Vandamálið var hins vegar að á kaþólskum spítölum er stranglega bannað að framkvæma fóstureyðingar þar sem slíkt samræmist ekki trúnni. En þar sem um bráðatilfelli var að ræða og læknar mátu það sem svo að konan myndi ekki lifa það af að vera flutt á annan spítala var, að höfðu samráði við sjúklinginn, fjölskyldu hennar, lækni og siðanefnd spítalans, tekin sú ákvörðun að framkvæmd skyldi á konunni fóstureyðing.
Konan lifði aðgerðina af og snéri óhult heim til eiginmanns síns og barnanna þeirra fjögurra. En þar með var málið ekki úr sögunni, því þegar Thomas Olmstead, biskupinn í Phoenix, frétti af málinu brást hann harkalega við. Þrátt fyrir að systir Margaret McBride hafi gert honum grein fyrir aðstæðum ákvað hann að beita hana einni hörðustu refsingunni sem þekkist innan kaþólsku kirkjunnar og bannfæra hana.
Mæðrum ber stundum að deyja með börnum sínum
Sú ákvörðun biskups hefur mætt harðri gagnrýni í bandarískum fjölmiðlum. Þar setja menn spurningamerki við það hvers vegna biskup velji að refsa nunnunni svo harkalega fyrir tilraun hennar til að bjarga mannslífi á sama tíma og biskupar kaþólsku kirkjunnar taki á barnaníðingum úr röðum presta kirkjunnar með silkihönskum.
Biskupinn hefur hins vegar varið ákvörðun sína með kjafti og klóm. Þannig hefur presturinn John Ehrich, sem jafnframt er yfirmaður siðanefndar kirkjunnar, látið hafa eftir sér að systir McBride hafi tekið þátt í morði á ófæddu barni. „Undir sumum kringumstæðum ber mæðrum einfaldlega að deyja með ófæddu barni sínu.“
Hann er ekki einn um að tala máli biskupsins. Þannig hefur Jimmy Akin, sem er þekktur innan kaþólsku kirkjunnar, lagt á það áherslu að það sé ekki biskupinn sem hafi hagað sér eins og skrímsli í málinu heldur nunnan. Hann hefur hins vegar valið að tjá sig ekki um það hvernig nunnan hefði átt að bregðast við þegar ljóst var að lífi móðurinnar var í hættu.