Hjón í Suður-Kóreu voru svo upptekin af því að passa upp á sýndarbarn í netheimum að þau leyfði eigin barni í mannheimum að svelta í hel. Þau hafa nú verið dæmd í tveggja ára fangelsi.
Maðurinn sem er 41 árs og konan sem er 25 ára voru handtekin í mars sl. í kjölfar þess að dóttir þeirra lést vegna þess að þau höfðu gleymt að gefa henni að borða. Ástæða vanrækslunnar var sú hversu upptekin þau hjónin voru af sýndarbarni sínu í netheimum.
Faðirinn hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi, en dómarinn ákvað að skilorðsbinda dóminn yfir móðurinni vegna þess að hún er ólétt af öðru barni þeirra hjóna. Parið var sakað um að hafa ekki sinnt dóttur sinni, sem fæddist fyrir tímann og þurfti því stöðuga umönnun. Þau gáfu henni hvorki brjóstamjólk né fasta fæðu heldur eyddu öllum tíma sínum á nálægu netkaffihúsi þar sem þau sinntu sýndarbarni sínu.
„Þetta er ómanneskjulegur glæpur sem er með öllu ófyrirgefanlegur,“ segir m.a. í úrskurði dómara.
Málið hefur vakið mikinn óhug í Suður-Kóreu og hefur m.a. leitt til þess að stjórnvöld hafa innleitt strangari reglur í því skyni að vinna gegn netfíkn almennings. Nýju reglurnar fela það m.a. í sér að þrír stórir leikjaframleiðendur á netinu verða frá og með september nk. að innleiða kerfi sem gerir það að verkum að hægt er að takmarka aðgang yngra fólks að netinu í samræmi við óskir foreldra eða foráðamanna.
Dauðsfall litlu stúlkunnar er langt því frá það fyrsta sem tengja má við net- og tölvuleikjafíkn í landinu. Í mars sl. lést 32 ára gamalla maður eftir að hann hafði spilað tölvuleik nær samfleytt í fimm sólarhringa, en sömu örlaga biðu 28 ára gamals manns árið 2005. Samkvæmt opinberum tölum í Suður-Kóreu þjást tvær milljónir íbúa landsins af netfíkn.