Ísraelska sjónvarpið sagði fyrir stundu, að 19 farþegar í skipi, sem ísraelskir sérsveitarmenn réðust á í nótt, hefðu látið lífið og 36 særst. Afar hörð viðbrögð hafa orðið við árásinni og hafa Danir, Norðmenn og Svíar m.a. kallað sendiherra Ísraels á fundi og krafist skýringa.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sagði í dag að sendiherra Ísraels í Ósló hefði verið kallaður í utanríkisráðuneytið. Stoltenberg sagði á blaðamannafundi, að norsku ríkisstjórninni væri brugðið vegna þessara atburða sem væru óafsakanlegir.
Fjórir Norðmenn voru um borð í forustuskipinu í skipalestinni. Talsmenn norskra hjálparsamtaka segja, að ekki hafi náðst samband við Norðmennina í morgun.
Lena Espersen, utanríkisráðherra Dana, sagðist hafa kallað sendiherra Ísraels í morgun á sinn fund til að krefjast skýringa á árás Ísraelsmanna á skipalestina, sem átti að flytja 10 þúsund tonn af hjálpargögnum til Gasasvæðisins. Fyrr í morgun kom fram að sænsk stjórnvöld hafa einnig krafist skýringa á árásinni.
Ísraelska sjónvarpið sagði, að fimm ísraelskir hermenn væru meðal hinna særðu og þar af væri einn í lífshættu.
Myndskeið af árás Ísraelshers í nótt