Bannað að nýta upplýsingar eftir pyntingar

Reuters

Kínversk stjórnvöld hafa gefið það út að framvegis verði bannað að nýta fyrir dómi upplýsingar úr yfirheyrslum sem fengnar hafi verið með pyntingum. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að nýverið var dæmdum morðingja sleppt þegar meint fórnarlamb hans reyndist vera á lífi.

Samkvæmt kínverskum lögum er raunar bannað að beita pyntingum til að þvinga fram játningu en sérfræðingar eru sammála um að þau lög séu þverbrotin. Það kom embættismönnum mjög illa þegar í ljós kom að Zhao Zuohai hafði eytt 11 árum að ósekju bak við lás og slá sakfelldur vegna morðs sem aldrei hafði verið framið. Segist hann hafa þurft að þola stanslausar barsmíðar af hendi lögreglunnar þar til hann játaði hið meinta morð.

Zhao Zuohai fékk 96.000 bandaríkjadali eða sem samsvarar rúmum 12 milljónum íslenskra króna í skaðabætur og tveir þeirra lögreglumanna sem ásakaðir hafa verið um berja hann til játningar hafa verið handteknir.

Að sögn fréttaskýrenda styðst kínverska réttarkerfið að mjög stórum hluta við játningar meintra glæpamanna sem skýrir hvers vegna lögreglan hefur freistast til þess að nýta sér pyntingar til þess að þvinga fram játningar.

Samkvæmt nýlegri ákvörðun kínverska stjórnvalda mega dómstólar framvegis ekki nýta fyrir dómi játningar sem fengnar hafa verið með pyntingum né heldur sönnunargögn frá ónafngreindum heimildarmönnum í málum þar sem hinn seki á yfir höfuð sér dauðarefsingu fyrir afbrot sitt. Sakborningum sem hlotið geta dauðarefsingu fyrir brot sitt geta framvegis krafist rannsóknar á því hvort vitnisburður þeirra hafi verið fenginn með þvingunum.

Að sögn lagaspekingsins Zhao Bingzhi hafa aldrei áður verið gefin út jafn skýr fyrirmæli um hvernig taka beri á vitnisburðum, játningum og sönnunargögnum. „Áður var aðeins hægt að byggja á óljósri lagatúlkun þess efnis að bannað væri að nota ólögleg sönnunargögn. Það þýddi hins vegar í reynd að í mörgum málaferlum var litið á þessi sönnunargögn sem góð og gild,“ segir hann. Tekur hann fram að ákvörðun stjórnvalda feli í sér mikla framför bæði fyrir dómskerfið og til að tryggja betur mannréttindi og muni vonandi verða til þess að fækka dauðarefsingum í landinu.






mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert