Níu Svíar, sem voru á skipum sem ísraelskir sérsveitarmenn réðust á í morgun, eru allir heilir á húfi. Fjórir þeirra voru hnepptir í varðhald í ísraelsku borginni Beersheba en hinum fimm, þar á meðal rithöfundinum Henning Mankell, voru settir þeir úrslitakostir, að skrifa annaðhvort undir yfirlýsingu og vera síðan vísað úr landi eða koma fyrir rétt í Ísrael.
Þetta kemur fram á vef Dagens Nyheter. Þar er haft eftir talsmanni sænska utanríkisráðuneytisins, að einn Svíanna hafi fengið smávægilega áverka á andliti en hinir eru ómeiddir.
Fjölmennur mótmælafundur fór fram gegn Ísrael á Sergelstorgi í Stokkhólmi í dag. Segir Dagens Nyheter að 4 þúsund manns hafi tekið þátt í fundinum.