Gerðu árás á hjálparskip

Ísraelski sjóherinn gerði árás á eitt af 6 skipum sem voru á leið til Gasasvæðisins með hjálpargögn á vegum tyrkneskra hjálparsamtaka. Ísraelskir fjölmiðlar segja að 10-14 manns hafi látið lífið þegar sérsveitarmenn hófu skothríð á farþega í skipinu, sem réðust á þá með öxum og hnífum. Ísraelsmenn höfðu varað við afleiðingum þess að skipin færu inn í ísraelska lögsögu. Tyrkir hafa fordæmt árásina og Hamassamtökin hvetja til aðgerða gegn Ísrael.

Fréttir af málinu eru óljósar en Ísraelsher bannaði í morgun allar fréttir um látna eða særða. Þá er ekki vitað hvar Ísraelsmenn stöðvuðu skipið. Á tyrkneskum sjónvarpsmyndum, sem teknar voru um borð í forustuskipinu, sjást ísraelskir hermenn reyna að yfirbuga farþega. Þá sáust nokkrir liggja særðir og skothvellir heyrðust.   

Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera, sem var með fréttamann um borð í skipinu, sagði að Ísraelsher hefði ráðist til inngöngu í skipið og sært skipstjórann.  

Skipuleggjendur siglingarinnar segja að 30 að minnsta kosti hafi særst. Um borð í skipinu voru hundruð stuðningsmanna Palestínumanna af ýmsum þjóðernum, þar á meðal þingmenn og fyrrum friðarverðlaunahafi Nóbels.

Skipalestin sigldi út af alþjóðlegu hafsvæði undan  strönd Kýpur í gær og var búist við því að hún kæmi til Gasasvæðisins síðdegis í dag. Ísraelsstjórn sagðist myndu stöðva skipin og sagði að um væri að ræða aðgerð sem sem væri ætlað að ögra Ísrael og grafa undan lögmæti aðgerða stjórnvalda.

Ísraelsmenn settu viðskiptabann á Gasasvæðið eftir að Hamassamtökin náðu þar völdum. Segist Ísraelsstjórn leyfa að um það bil 15 þúsund tonn af hjálpargögnum séu flutt til Gasa vikulega. Sameinuðu þjóðirnar segja hins vegar að þörf sé á mun meiri hjálpargögnum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert