Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, er á leið heim frá Norður-Ameríku en alþjóðlegt uppnám er vegna árásar ísraelskra sérsveitarmanna á skip í skipalest hjálparsamtaka, sem átti að flytja hjálpargögn til Gasasvæðisins.
Til stóð að Netanyahu ætti viðræður við Barack Obama, Bandaríkjaforseta, síðdegis en að sögn ísraelska útvarpsins hefur hann nú stytt ferð sína og er á leið heim.
Sendiherrar aðildarríkja Evrópusambandsins hafa verið boðaðir á fund í Brussel í dag vegna málsins.
Tyrknesk stjórnvöld tilkynntu í dag að þau muni kalla sendiherra Tyrkja heim frá Ísrael. Þá ætla Tyrkir einnig að kalla saman neyðarfund í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þar sem þeir sitja.