Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sakaði Ísraelsmenn í dag um ómannúðlega ríkishryðjuverkastarfsemi og vísaði þar til árásarinnar, sem ísraelskir sérsveitarmenn gerðu á skipalest á Miðjarðarhafi. Sendiherrar NATO-ríkjanna munu koma saman á fundi í Brussel á morgun vegna málsins að ósk Tyrkja.
„Við munum ekki sitja þegjandi og aðgerðalaus hjá eftir að hafa orðið vitni að þessu ómannúðlega ríkishryðjuverki," sagði Erdogan við fréttamenn á leið heim frá Chile. „Alþjóðalög hafa verið fótum troðin."
Ísraelsher sagði síðdegis, að 9 manns hefðu látið lífið eftir að sérsveitarmennirnir fóru um borð í forustuskip lestarinnar í nótt. Ísraelskir fjölmiðlar hafa sagt að 19 manns að minnsta kosti hafði látið lífið og tugir særst.