Annað skip á leið til Gasa

Ísraelsmenn segjast munu stöðva öll þau skip, sem reyni að rjúfa hafnbannið á Gasaströndinni og sigla þanga. Aðgerðarsinnar ætla að gera nýja tilraun til að sigla með hjálpargögn til Gasa en í gærmorgun réðust Ísraelsmenn á skipalest, sem var að flytja þangað hjálpargögn.

„Við munum ekki leyfa neinum skipum að sigla til Gasa með vistir handa hryðjuverkamiðstöð sem ógnar Ísrael," sagði Matan Vilnai, varnarmálaráðherra Ísraels, við ísraelska útvarpið. 

Að minnsta kosti níu manns biðu bana og margir særðust í árásinni sem Ísraelemenn gerðu á skipalest sex skipa, sem var á leið til Gasasvæðisins. Árásin var gerð á alþjóðlegu hafsvæði. Að minnsta kosti 9 farþegar um borð í forustuskipinu létu lífið. Alls voru á sjöunda hundrað manna um borð í skipunum og eru um 480 þeirra nú í ísraelskum fangelsum. Reiknað er með að flestum þeirra verði vísað úr landi. 

Skipuleggjendur svonefnds Frelsisflota sögðust í morgun vera að undirbúa að senda tvö skip til viðbótar til Gasa. Matahir Mohamad, fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, sagði við Al-Jazeera sjónvarpsstöðina, að skipin muni halda áfram þar til þau verða stöðvuð. Gerist það verði óskað eftir því að þau fái að halda áfram. „Við erum þegar öllu er á botninn hvolft, aðeins með hjálpargögn um borð." 

Mohamad er nú leiðtogi friðarsamtakanna Perdana. Samtökin eiga flutningaskipið Rachel Corrie en það er nefnt eftir bandarískri konu sem lét lífið í mótmælaaðgerðum gegn Ísraelsher á Gasasvæðinu 2003.

Greta Berlin, hjá Frelsissamtökum Gasa, sagði hins vegar við AFP fréttastofuna að næsta tilraun til að rjúfa hafnbannið verði ekki gerð fyrr en eftir nokkra daga.

Hún sagði að Rachel Corrie væri nú undan strönd Ítalíu og verið væri að gera við önnur skip.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka