Árásin var ekki árangursrík

Sendiherra Ísraels í Bretlandi viðurkenndi í viðtölum við þarlenda fjölmiðla, að árás ísraelskra sérsveitarmanna á skip svonefnds Frelsisflota á Miðjarðarhafi í gær hefði mistekist. Að minnsta kosti níu aðgerðasinnar um borð í skipunum biðu bana. 

„Það er augljóst og ég ætla ekkert að reyna að fela það, að þetta tókst ekki," sagði Ron Prosor við breska ríkisútvarpið BBC þegar hann var spurður hvort árásin hefði þjónað hagsmunum Ísraels.  Sagði Prosor að greinilega hefði verið hægt að haga málum með öðrum hætti.

Við Sky sjónvarpsstöðina sagði Prosor, að það sem gerðist hefði augljóslega verið harmleikur. Hann lagði hins vegar áherslu á, að herskáir einstaklingar hefðu verið um borð í skipunum sem beittu hnífum og járnstöngum þegar ísraelsku sérsveitarmennirnir létu sig síga niður í skipið.

Þá sagði Prosor að hafnbannið hefði verið sett við Gasaströndina vegna þess að vopnum væri smyglað til Gasa.  

„Þeir reyndu hvað þeir gátu að ögra og stofna til átaka og þessi herskáu öfl beittu fyrir sig því, sem átti að vera mannúðarmál," sagði hann við BBC.

Hann bætti við, að umræður væru þegar hafnar innan ísraelsku ríkisstjórnarinnar um hvað hefði gerst. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka