Kona er í lífshættu eftir að karlmaður kveikti í henni á bensínstöð í Ástralíu í dag. Árásarmaðurinn stakk konuna áður en hann kveikti í henni og bifreið hennar í Melbourne. Að sögn vitna sagði árásarmaðurinn þeim að láta konuna brenna þegar þau reyndu að aðstoða hana. Lögreglan hvatti vitni að hryllingnum til að leita sér áfallahjálpar.
Í tilkynningu frá lögreglunni í Victoria kemur fram að óttast er um velferð ýmissa vitna að árásinni í morgun. Ástralska ríkissjónvarpið ABC hefur eftir lögreglu, að konan og maðurinn hafi búið saman og lent í deilum sem lauk með þessum hræðilega hætti.
Vörubílstjóri sem átti leið um bensínstöðina í morgunumferðinni segir að hann hafi reynt að aðstoða konuna með handslökkvitæki en árásarmaðurinn hafi stöðvað hann með hníf. „Hann sagði að hún ætti að brenna," sagði bílstjórinn í viðtali við Fairfax útvarpsstöðina. Var konan þá að reyna að slökkva í sjálfri sér með því að velta sér á jörðinni. Bíllinn brann til kaldra kola en konan, sem er í lífshættu, er með brunasár á nánast öllum líkamanum.
Annar ökumaður reyndi að aka á árásarmanninn svo hægt væri að aðstoða konuna. Árásarmaðurinn lagði þá á flótta en lögreglan handtók hann við kirkju í nágrenninu.