Krefjast rannsóknar á árásinni

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krefst rannsóknar á  árás Ísraela á skip sem flytja áttu hjálpargögn til Gaza-svæðisins. Að minnsta kosti tíu manns biðu bana og margir særðust í árásinni sem var gerð á alþjóðlegu hafsvæði. Ráðið krefst þess jafnframt að allir almennir borgarar verði látnir lausir úr haldi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá öryggisráðinu í morgun er árás sem kostaði tíu hið minnsta lífið og særði marga fordæmd og þess krafist að skipin og þeir sem voru um borð verði sleppt strax. Að rannsókn á atvikinu hefjist þegar og hún verði gagnsæ. 

Þrátt fyrir þetta þá sagði aðstoðarvarnarmálaráðherra Ísraels, Matan Vilnai, að Ísraelar muni koma í veg fyrir að skip með hjálpargögn fái að koma til Gaza. Lýsti hann þessu yfir eftir að aðgerðarsinnar sögðu að árásin myndi ekki koma í veg fyrir að reynt yrði að koma hjálpargögnum þangað.

„Við munum ekki leyfa neinu skipi að koma til Gaza og koma birgðum á þann stað sem er orðinn bækistöð hryðjuverkamanna sem ógnar hjarta Ísraels," sagði Vilnai í útvarpi í morgun

Stjórnvöld víða um heim fordæmdu í gær árásina.Stjórnvöld í Bandaríkjunum, nánustu bandamenn Ísraela, sögðust harma manntjónið og vera að afla upplýsinga um „þennan harmleik“. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, var í Kanada, á leiðinni til Bandaríkjanna og hugðist ræða við Barack Obama í Hvíta húsinu í dag en ákvað að aflýsa heimsókninni vegna árásarinnar. Kvaðst Netanyahu harma atvikið en lagði þó jafnframt áherslu á að hermennirnir hefðu verið að verja sig eftir að hafa sætt barsmíðum og verið stungnir með eggvopnum.

Stjórnvöld í Grikklandi hættu við þátttöku landsins í heræfingum með Ísraelum og aflýstu fyrirhugaðri ferð yfirmanns gríska flughersins til Ísraels. Tugir Grikkja voru í skipi sem Ísraelsher mun hafa ráðist á. Stjórn Tyrklands kallaði sendiherra sinn í Ísrael heim og sagði að árásin hefði „óbætanlegar afleiðingar fyrir samskipti ríkjanna“. Stjórnin sakaði Ísraela um „svívirðilegt brot á alþjóðalögum“.

Markmiðið með siglingu skipanna var að flytja um 10.000 tonn af hjálpargögnum til Gaza-svæðisins. Í skipunum voru yfir 700 manns, um helmingurinn frá Tyrklandi en hinir frá 50 löndum. Á meðal farþeganna voru nokkrir evrópskir þingmenn, rithöfundar og blaðamenn, Hilarion Capucci, fyrrverandi biskup grísku rétttrúnaðarkirkjunnar í Jerúsalem og Raed Salah, leiðtogi Íslömsku hreyfingarinnar í Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert