Krefjast rannsóknar á árásinni

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krefst rannsóknar á  árás Ísraela á skip sem flytja áttu hjálpargögn til Gaza-svæðisins. Að minnsta kosti tíu manns biðu bana og margir særðust í árásinni sem var gerð á alþjóðlegu hafsvæði. Ráðið krefst þess jafnframt að allir almennir borgarar verði látnir lausir úr haldi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá öryggisráðinu í morgun er árás sem kostaði tíu hið minnsta lífið og særði marga fordæmd og þess krafist að skipin og þeir sem voru um borð verði sleppt strax. Að rannsókn á atvikinu hefjist þegar og hún verði gagnsæ. 

Þrátt fyrir þetta þá sagði aðstoðarvarnarmálaráðherra Ísraels, Matan Vilnai, að Ísraelar muni koma í veg fyrir að skip með hjálpargögn fái að koma til Gaza. Lýsti hann þessu yfir eftir að aðgerðarsinnar sögðu að árásin myndi ekki koma í veg fyrir að reynt yrði að koma hjálpargögnum þangað.

„Við munum ekki leyfa neinu skipi að koma til Gaza og koma birgðum á þann stað sem er orðinn bækistöð hryðjuverkamanna sem ógnar hjarta Ísraels," sagði Vilnai í útvarpi í morgun

Stjórnvöld víða um heim fordæmdu í gær árásina.Stjórnvöld í Bandaríkjunum, nánustu bandamenn Ísraela, sögðust harma manntjónið og vera að afla upplýsinga um „þennan harmleik“. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, var í Kanada, á leiðinni til Bandaríkjanna og hugðist ræða við Barack Obama í Hvíta húsinu í dag en ákvað að aflýsa heimsókninni vegna árásarinnar. Kvaðst Netanyahu harma atvikið en lagði þó jafnframt áherslu á að hermennirnir hefðu verið að verja sig eftir að hafa sætt barsmíðum og verið stungnir með eggvopnum.

Stjórnvöld í a.m.k. sex Evrópuríkjum – Austurríki, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Noregi og Spáni – kölluðu sendiherra Ísraels á sinn fund til að krefjast skýringa á árásinni. Stjórn Spánar, sem fer fyrir Evrópusambandinu þetta misserið, sagði að árásin væri „óviðunandi“.

Stjórnvöld í Grikklandi hættu við þátttöku landsins í heræfingum með Ísraelum og aflýstu fyrirhugaðri ferð yfirmanns gríska flughersins til Ísraels. Tugir Grikkja voru í skipi sem Ísraelsher mun hafa ráðist á. Stjórn Tyrklands kallaði sendiherra sinn í Ísrael heim og sagði að árásin hefði „óbætanlegar afleiðingar fyrir samskipti ríkjanna“. Stjórnin sakaði Ísraela um „svívirðilegt brot á alþjóðalögum“.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, lýsti árásinni sem „fjöldamorði“ og Amr Mussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, sagði að árásin væri „glæpur“ sem sýndi að Ísraelar vildu ekki frið.

Markmiðið með siglingu skipanna var að flytja um 10.000 tonn af hjálpargögnum til Gaza-svæðisins. Í skipunum voru yfir 700 manns, um helmingurinn frá Tyrklandi en hinir frá 50 löndum. Á meðal farþeganna voru nokkrir evrópskir þingmenn, rithöfundar og blaðamenn, Hilarion Capucci, fyrrverandi biskup grísku rétttrúnaðarkirkjunnar í Jerúsalem og Raed Salah, leiðtogi Íslömsku hreyfingarinnar í Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka