Stjórnvöld í Ísrael hafa tilkynnt að allir þeir útlendingar sem handteknir voru í skipalestinni á alþjóðlegu hafsvæði á leið til Gasasvæðisins með hjálpargögn verði vísað úr landi í seinasta lagi nk. fimmtudag.
Ísraelsk stjórnvöld hafa verið undir mikilli pressu frá alþjóðasamfélaginu vegna málsins, en a.m.k. níu aðgerðarsinnar létust þegar ísraelski herinn réðist um borð í skipalestinni.
Jafnframt hafa ísraelsk stjórnvöld heitið rannsókn á málinu að kröfu alþjóðasamfélagsins.
Alls voru 682 aðgerðarsinnar frá 42 löndum í skipalestinni handteknir í framhaldi af aðgerðum ísraelska hersins. Fljótlega var nokkrum tugum þeirra sleppt meðan hundruðum var varpað í fangelsi, flestir í þeim hópi voru tyrkneskir ríkisborgarar.
Fljótlega eftir handtökuna samþykktu 45 aðgerðarsinnar að láta vísa sér umsvifalaust úr landinu og var þeim flogið úr landi í gær og í dag. Um 120 arabar voru fluttir að landamærum Jórdaníu, að sögn Sabine Haddad, talskonu útlendingalögreglunnar.
Hundruðir aðgerðarsinna neituðu hins vegar að undirrita yfirlýsingu þess efnis að þeir hefðu komið til Ísraels með ólögmætum hætti í ljósi þess að þeir voru handsamaðir á alþjóðlegu hafsvæði.
Alþjóðlegi rauði krossinn fékk að heimsækja fangana. „Okkar forgangsatriði hefur verið að ganga úr skugga um að aðstæður fanganna séu í lagi og kanna í hvernig ásigkomulagi fólkið sem særðist er,“ sagði Pierre Wettach, sem fór fyrir sendinefnd Rauða krossins.
Eftir gagnrýni alþjóðasamfélagsins síðustu tvo daga ákváðu ísraelsk stjórnvöld að vísa öllum föngunum úr landi. Þrátt fyrir þetta hafa talsmenn Hvíta hússins neitað að fordæma framferði Ísraela og fremur kosið að túlka atburðina sem svo að þörfin fyrir friðarviðræður væri enn brýnni en áður.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lét þó hafa eftir sér að aðstæður á Gaza væru óviðuandi og gætu ekki haldið áfram.