Yfirvöld í héraðinu Aceh í Indónesíu, þar sem múslímar eru í meirihluta, hafa sett bann við því að konur klæðist þröngum buxum og dreifa um þessar mundir síðum pilsum til kvenna. Með þessu vilja yfirvöld innleiða klæðnað í samræmi við sjaría lög.
Aceh hérað á Súmötru er eina hérað Indónesíu þar sem sjaríalög eru við lýði. Verslunarmenn í borginni Meulaboh, sem selja fatnað fyrir konur, segjast styðja lögin þrátt fyrir að sumir hafi áhyggjur af samdrætti í sölu. Ríkisstjórinn Ramli Mansyur segir að sjaríalögreglan muni taka nokkurra mánuða aðlögunartíma, til að uppfræða fólk um klæðnað við hæfi, áður en gripið verði til refsinga í ágúst. Þeir sem ekki klæða sig rétt verða hinsvegar færðir á lögreglustöð til að fá fræðslu um sjaríalögin.
Ýmsar reglur hafa undanfarið verið hertar í samræmi við sjaríalög í Aceh. Meðal annars hefur sjaríalögreglan farið í herferð gegn ógiftum pörum, fjárhættuspilurum og drykkjumönnum.