Skipverjar um borð í skipalestinni, sem var á leið með hjálpargögn til Gaza, þegar ísraelski herinn réðist um borð og skutu a.m.k. níu manns til bana, eru byrjaðir að tjá sig. Lýsing þeirra á atburðunum er ekki samhljóða lýsingum ísraelska hersins.
Norman Paech, þýskur stjórnmálamaður og aðgerðarsinni sem styður málstað Palestínumanna, sagðist aðeins hafa séð trékylfum beitt, ekki járnrörum. Hann vísaði þeim fullyrðingum ísraelska hersins á bug að skipverjar hafi verið vopnaðir hnífum og öðrum vopnum sem hafi leitt til þess að hermennirnir hafi verið þvingaðir til þess að hefja skothríð sína.
„Viðbrögð hermannanna geta ekki flokkast sem sjálfvörn," sagði Paech við komuna til Berlínar fyrr í dag. "Sjálfur sá ég aðeins tvo skipverja með trékylfur á lofti.... Það voru engin önnur vopn. Við sáum aldrei neina hnífa. Þarna var um að ræða árás á alþjóðlegu hafsvæði á friðsamlega skipalest. Þetta var ekkert annað en sjórán.“
Paech var farþegi á tyrkneska skipinu Mavi Marmara þar sem flestöll dauðsföllin áttu sér stað.
Inge Hoeger, annar þýskur aðgerðarsinni, sagði að skipverjar hafi verið um borð í skipinu í friðsamlegum tilgangi. „Við vildum flytja hjálpargögn til Gaza. Enginn um borð var vopnaður,“ sagði Hoeger og bætti við: „Við vorum okkur fyllilega meðvituð um að það yrði ekki einföld sjóferð að koma hjálpargögnunum til Gaza. En við bjuggumst aldrei við svona hrottaskap.“
Við komuna til Istanbul sagði Bayram Kalyon, aðgerðarsinni sem einnig var um borð í Mavi Marmara,: „Skipstjórinn sagði við okkur: „Þeir eru að skjóta tilviljunarkennt út í loftið, þeir eru að brjóta glugga til að komast inn. Þannig að þið ættuð að yfirgefa svæði eins fljótt og auðið er.“ Þetta voru síðustu samskiptin sem við áttum við hann.“
Að minnsta kosti fjórir þeirra sem létust voru tyrkneskir ríkisborgarar. Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hefur lýst árás Ísraelshers sem blóðblaði og tekur ótækt að ekki verði refsað fyrir árásina. Hann hefur hvatt ísraelsk stjórnvöld til þess að láta ekki reyna á þolinmæði Tyrkja.