Um að ræða röð mistaka

Reuters

Talsmenn ísraelska hersins hafa viðurkennt að röð mistaka hafi verið gerð þegar herinn réðist um borð í skipalestinni sem var á leið með hjálpargögn til Gaza og skutu a.m.k. níu manns til bana. Þetta hefur Reuters eftir fulltrúum hersins. Segja þeir ljóst að aðgerðin hafi ekki verið undirbúin sem skyldi, hermennirnir hafi ekki verið rétt útbúnir og sökum þessa hafi verið brugðist vitlaust við. Árásin hefur verið harðlega gagnrýnd af stjórnvöldum víðs vegar um heiminn.

Ísraelskur fréttaskýrandi krefst þess nú að Ehud Baraks, varnarmálaráðherra Ísraels, segi af sér vegna málsins. Ráðherrar í ríkistjórn landsins hafa hins vegar lofað því að fram fari ítarleg rannsókn á málinu. Þeir standa fast á því að aðgerðarsinnar, hliðhollir málstað Palestínumanna, sem um borð í skipalestinni voru beri sjálfir ábyrgð á blóðsúthellingunum þar sem þeir hafi ögrað ísraelsku hermönnunum.

Samkvæmt heimildum Reuters munu nokkrir þeirra hermanna sem þátt tóku í aðgerðinni bent á að hún hafi verið illa skipalögð.

„Við reiknuðum aldrei með því að mótstaða aðgerðarsinnanna gæti verið með þessum hætti, í ljósi þess að um var að ræða mannréttindafrömuðu sem gáfu sig út fyrir að sinna hjálparstarfi,“ lét einn þeirra hermanna sem leiddi aðgerðina um borð í skipalestinni hafa eftir sér í útvarpi ísraelska hersins. Hann vildi þó ekki láta nafn síns getið.

„Atburðarrásin varð ekki með þeim hætti sem við höfðum gert ráð fyrir. En ég verð að segja að það er á ábyrgð mótmælendanna sem við mættum,“ bætti hann við.

Enn sem komið er hafa skipverjar ekki getað tjáð sig um atburðina þar sem þeir sitja enn innilokaðir í ísraelskum fangelsum. Hins vegar hefur upptökum af atburðinum verið dreift til fjölmiðla og þar má sjá að skipverjar réðust á hermennina með kylfum og plaststólum. Þar má einnig sjá að aðeins örfáir hermenn reyna að takast á við um 30 aðgerðarsinna. Einnig má sjá að hermennirnir, sem komu um borð með því að renna sér niður reipi, voru alltof fáir til þess að eiga von um að yfirbuga skipverja og virtust alls ekki undirbúnir undir viðtökurnar sem þeir fengu. 

Sumir hermannanna notuðu málningarkúlur í stað lífshættulegra skotfæra, enda markmiðið að særa skipverja og merkja þá þannig að auðveldlegar mætti greina hverja ætti að handtaka. Hjá Reuters kemur fram að þessi aðferð hafi ekki skilað neinum árangri þar sem fjöldi skipverja hafi verið íklæddir skotheldum vestum og með gasgrímur. Þegar ljóst var hversu erfiðar aðstæður væru fyrir hermennina völdu margir þeirra að stökkva aftur frá borði.

Samkvæmt heimildum frá ísraelska hernum særðust sjö hermenn. Flestir þeirra þegar þeir köstuðu sér frá borði, en einnig urðu tveir þeirra fyrir skotum úr eigin byssum þegar skipverjar reyndu að rífa vopnin af þeim.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), krafðist þess í dag að ísraelsk stjórnvöld slepptu þegar í stað lausu því fólki sem var um borð í skipalestinni og handtekið var í kjölfar árásarinnar.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka