Atvinnuleysið eykst enn í löndum Evrópusambandsins ekki síst í hópi þeirra sem yngstir eru. Nú er svo komið að 20,6% allra ungmenna undir 25 ára aldri eru án atvinnu, samanborið við 9,7% allra Evrópubúa óháð aldri. Það þýðir að 5,3 milljónir ungmenna eru án atvinnu.
Sökum þessa vill atvinnunefnd Evrópuþingsins koma upp sérstökum sjóði sem hafi það að hlutverki að tryggja ungu fólki starfsþjálfun eða framhaldsmenntun innan við fjóra mánuði frá atvinnumissi.
Nefndin samþykkti fyrr í dag aðgerðaráætlun sem samanstendur af 23 tillögum. Meðal þess sem þar er lagt er að aðildarlönd ESB beiti sér markvisst gegn brottfalli nemenda úr skólum með því t.d. að fækka nemendum í bekkjum, koma upp mentorkerfi og auka eftirfylgd með nemendum sem hverfa frá námi.