Sænski rithöfundurinn Henning Mankell fordæmir það ofbeldi, sem Ísraelsher beitti þegar hann réðist á skipalest aðgerðarsinna sem var á leið með hjálpargögn til Gasasvæðisins á mánudagsmorgun. Mankell var um borð í einu skipinu og honum var í gær vísað úr landi í Ísrael.
„Hvað mun gerast á næsta ári þegar við komum aftur með hundruð skipa? Munu þeir varpa kjarnorkusprengju?" sagði Mankell við fréttastofuna TT þegar hann kom til Gautaborgar í nótt.
„Við vitum að Ísrael er á hnjánum. Engin hefði getað spáð fyrir um þessi viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Ísraelsmenn eru fullkomlega einangraðir í þessu máli því fólk hefur fengið algjörlega nóg af grimmilegu ofbeldi sem þeir hafa á samvisku sinni,“ sagði Mankell.
Henning Mankell er mörgum af góðu kunnur fyrir sögur sínar um Wallander lögregluforingja. Hann tók, ásamt 11 öðrum Svíjum, þátt í aðgerðum sem miðuðu að því að flytja hjálpargögn til Gasa.
Níu manns að minnsta kosti féllu í áhlaupi Ísraelshers á skipalestina og voru aðgerðarsinnarnir allir teknir höndum. Stjórnvöld í Ísrael hafa nú vísað flestum þeirra úr landi.