Atvinnumálaráðherra Þýskalands, Ursula von der Leyen, er líklegust til þess að verða næsti forseti Þýskalands ef marka má skoðun almennings, samkvæmt þýskum fjölmiðlum í dag. Sérstaklega er tekið fram að hún sé sjö barna móðir af fjölmiðlum. Eins er Norbert Lammert, forseti neðri deildar þingsins nefndur í fjölmiðlum en ekki er minnst á hversu mörg börn hann á.
Þjóðverjar þurfa að velja sér nýjan þjóðarleiðtoga fyrir 30. júní en Horst Koehler sagði af sér embætti á mánudag eftir harða gagnrýni fyrir ummæli sín varðandi Afganistan en þau virtust benda til þess að hann teldi að þátttaka Þjóðverja í hernaðinum í Afganistan væri af efnahagslegum rótum runnin.
Von der Leyen, 51 árs, er sögð vera vinsælust ráðherra í samsteypustjórn Angelu Merkel, kanslara. Flokkur Merkel og Leyen, Kristilegir demókratar (CDU) eru með meirihluta í sérstöku ráði, sem er skipað þingmönnum og áhrifamönnum í þýsku samfélagi, sem velur nýjan forseta.
Auk Lammert og Von der Leyen er Christian Wulff, forsætisráðherra Neðra Saxlands og Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra nefndir til sögunnar.
Von der Leyen er menntaður læknir og var ráðherra fjölskyldumála í fyrstu ríkisstjórn Merkels. Ef hún verður valin forseti verður hún bæði yngst til að gegna því embætti og einnig fyrst kvenna.