Forsætisráðherra Breta, David Cameron, varaði í dag við því ráðist yrði gegn skotvopnalögum í landinu af fljótfærni eftir að leigubílstjórinn Derrick Bird skaut 12 manns til bana í nokkrum þorpum í norðvesturhluta Englands í gær.
Cameron sagði ljóst að atburðirnir í Cumbria sýslu myndu vekja deilur um hvort nauðsynlegt sé að breyta lögum um meðferð skotvopna. „Það rétta í stöðunni er að sjálfsögðu að fara vandlega yfir þessi málefni með opnum huga," sagði Cameron á blaðamannafundi í dag. „Við ættum hinsvegar að gera okkur grein fyrir því að í þessu landi búum við við einhver þau ströngustu skotvopnalög sem þekkjast í heiminum og við ættum ekki að bregðast of harkalega við og halda að það sé hægt að leysa þetta með lögum og reglugerðum. Við getum ekki sett lög gegn því að eitthvað bresti í höfðinu á fólki og gegn því að svona hræðilegir atburðir eigi sér stað."
Engu að síður sagði Cameron nauðsynlegt að gera allt til að ljúka rannsókn málsins og reyna að tryggja að annað eins gerist ekki aftur. Forsætisráðherrann mun heimsækja svæði þar sem skotárásin átti sér stað á morgun. Á blaðamannafundinum rifjaði hann upp að hann hefði sjálfur alist upp nærri Hungerford í Suður-Englandi þar sem einstæðingurinn Michael Ryan skaut 16 manns til bana árið 1987. Sú árás, sem og fjöldamorð á 16 börnum og kennara þeirra í grunnskóla í skoska bænum Dunblane árið 1996, hafi leitt til þess að lög um skotvopnaeign hafi verið hert verulega í Bretlandi.
Þrátt fyrir ströng lög eiga tæplega 600.000 Bretar löglega skráðar haglabyssur og yfir 100.000 önnur skotvopn, s.s. riffla eða öflugar loftbyssur. Derrick Bird átti löglega haglabyssu sem var skráð árið 1995 og fékk skotvopnaleyfi fyrir þremur árum.