Grænfriðungur sem gerði tilraun til að frelsa túnfisk úr neti á frönsku skipi í Miðjarðarhafi í dag fékk fyrir vikið skutul í gegnum fótinn. Það var sjómaður um borð sem skaut manninn.
Talsmaður Greenpeace segir að aðgerðarsinnar hafi með friðsamlegum hætti reynt að frelsa fiskinn en sjómaðurinn hafi brugðist við með ofbeldi og ráðist á aðgerðarsinnann með skutli. Hinn særði, sem er Breti, var fluttur á sjúkrahús á Möltu þar sem hann gengst undir aðgerð í kvöld. Hann er ekki í lífshættu en áverkarnir eru alvarlegir, að sögn Greenpeace.
Skipið sem um ræðir kallast Jean-Marie Christian VI og var eitt margra franskra túnfiskveiðiskipa á hafsvæðinu nærri Möltu þegar árásin átti sér stað. Þá skutu nokkrir sjómenn neyðarblysum í átt að þyrlu Greenpeace sem flaug yfir fiskimiðin til að fylgjast með mótmælaaðgerðunum.
Túnfiskveiðitímabilið í Miðjarðarhafi er stutt og varir aðeins frá miðjum maí fram í miðjan júní. Um 100 skip eru á veiðum á svæðinu í ár og eru mörg þeirra búin netabúrum sem notuð eru til að fanga túnfisk, sem síðan er fluttur lifandi í land þar sem hann er fitaður áður en hann er fluttur til Japan á frystitogurum þar sem hann er notaður í sushi og sashimi.
Fyrr á þessu ári beittu Evrópusambandið og Bandaríkin sér fyrir því að alþjóðlegt verslunarbann yrði sett á túnfisk sem veiddur er með þessum hætti í Miðjarðarhafi og austanverðu Atlantshafi. Japanir börðust hinsvegar af hörku gegn tillögunni og höfðu betur.