Stjórnmál á Norðurlöndum hafa snúist um þjóðernisleg málefni undanfarin ár þrátt fyrir aukna áherslu á hnattvæðinguna. Þetta kemur fram í nýjustu útgáfu Analys Norder, þar sem höfundar frá norrænu ríkjunum fimm kryfja þróunina sem átt hefur sér stað í pólitísku landslagi Norðurlanda.
Danski þjóðarflokkurinn hefur náð svo miklum tökum á stefnu stjórnvalda gagnvart innflytjendum, að jafnvel það sem margir líta á sem misrétti, dulbúið sem efnahagsstefnu í tengslum við nýjar niðurskurðaráætlanir, vekur ekki athygli.
Í Finnlandi hefur afstaðan harðnað til muna og málefni innflytjenda er komin í öndvegi á dagskrá stjórnmálanna, en það sem er áhugavert, er að sænski minnihlutinn og ESB verða fyrir barðinu á neikvæðri umfjöllun.
Íslendingar líta einnig inn á við, en viðbrögðin koma helst í ljós í uppgjöri við fyrri valdhafa og að einhverju leyti andstöðu við ESB, uppgjör sem sem einnig á sínar broslegu hliðar.
Norski framfaraflokkurinn hefur misst kraftinn, en Verkamannaflokkurinn hefur tekið upp orðræðu andstæðinganna þegar kemur að innflytjendamálum.
Fyrr á árinu leit út fyrir að Sænskir lýðræðissinnar (Sverigesdemokraterne) kæmust óvænt á þing. Nú er það ekki eins líklegt, en flokkurinn er þó áberandi í umræðunni, jafnvel þó skoðanakannanir bendi til þess að Svíar séu jákvæðari gagnvart innflytjendum en áður, að því er segir í tilkynningu frá Norðurlandaráði.