Börn og eiginmenn ísraelskra kvenna svipt ríkisborgararétti

Palestínumenn við landamæri Gaza og Egyptalands
Palestínumenn við landamæri Gaza og Egyptalands Reuters

Dómstóll í Kaíró úrskurðaði í dag að kanna skuli hvort svipta eigi egypska karlmenn sem giftir eru ísraelskum konum  ríkisborgararétti. Málið hefur vakið athygli á neikvæðri afstöðu egypsku þjóðarinnar til Ísraels.

Dómarinn Mohammed al-Husseini sem situr í hæstarétti úrskurðaði að innanríkisráðuneytið verði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að svipta egypska menn giftum ísraelskum konum ríkisborgararétti, og börnum þeirra einnig. Hvert og eitt mál skyldi skoða fyrir sig og úrskurðinum yrði ekki hægt að hnekkja. 30 ár eru liðin síðan Egyptar skrifuðu undir umdeildan og óvinsælan friðarsamning við Ísrael, fyrst arabaríkja.

Lögfræðingurinn Nabil al-Wahsh segist hafa átt frumkvæði að málarekstrinum gegn blönduðum hjónaböndum af þessu tagi til að koma í veg fyrir að sköpuð yrði heil kynslóð sem verði „ótrú Egyptalandi og arabaheiminum". Börn slíkra hjóna eigi „ekki að fá að gegna herþjónustu".

Talið er að um 30.000 egypskir menn séu giftir ísraelskum konum og þar af aðeins 10% arabískum Ísraelum, að sögn Wahsh. Innanríkis -og utanríkisráðuneytið höfðu áður áfrýjað samhljóðandi úrskurði sem féll í undirrétti, og sögðu að ákvarðanir um að grípa til slíkra aðgerða ættu að vera á höndum þingsins.

Þúsundir Egypta, sérstaklega margir sem bjuggu áður í Írak og sneru aftur eftir Persaflóastríðið 1990, fluttu til Ísrael í leit að vinnu og giftust ísraelskum konum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert