Hjálparskip siglir í átt til Gasa

Flutningaskipið Rachel Corrie siglir nú í átt að Gasaströndinni og hefur hunsað fyrirskipanir Ísraelshers um að halda til hafnarborgarinnar Ashdod í Ísrael. Ísraelsk herskip eru á svæðinu.

Talsmaður Ísraelshers segir, að skipinu hafi ítrekað verið skipað að halda til Ashdod vegna þess að hafnbann sé á Gasasvæðinu en því hafi ekki verið sinnt. Sagði talsmaðurinn við breska ríkisútvarpið BBC, að hermenn muni fara um borð í skipið breyti það ekki um stefnu.

Talsmaður móttökunefndar á Gasa sagði, að nokkur ísraelsk herskip hefðu umkringt skipið 30-35 mílur úti fyrir Gasaströndinni og reyndu þannig að hefta för þess. Sagðist talsmaðurinn hafa rætt við farþega um borð í síma en nú hefðu öll fjarskipti verið rofin. 

Rachel Corrie er í eigu írsks arms friðarsamtaka, sem nefna sig Frelsishreyfingu Gasa.  Um borð í skipinu eru tveir tugir manna, þar á meðal ýmsir þekktir einstaklingar, sem hafa beitt sér fyrir því að Ísraelar aflétti einangrun Gasasvæðisins.  Leiðangursstjóri er  Dennis Halliday, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Fjölda upptökuvéla hfur verið komið fyrir í skipinu, þannig að hægt verði að sýna frá því beint ráðist Ísraelar á skipið. 

Ísraelskir sérsveitarmenn réðust á mánudagsmorguninn á skipalest sex skipa, sem voru að flytja hjálpargögn til Gasasvæðisins í trássi við hafnbann Ísraelsmanna. Að minnsta kosti 9 farþegar um borð létu lífið. Fjöldi þjóðarleiðtoga um allan heim fordæmdi árásina og krafðist þess að hún yrði rannsökuð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert