Víðfrægur fréttaritari í Hvíta húsinu, hin 89 ára gamla Helen Thomas, sem gegndi störfum fyrir hvern einasta Bandaríkjaforseta frá John Kennedy til Barack Obama, hefur nú sagt af sér og sest í helgan stein í kjölfar umdeildra ummæla hennar um Ísrael.
Thomas er dóttir líbanskra innflytjenda í Bandaríkjunum og var frumkvöðull í flokki fjölmiðlakvenna þegar kom að umfjöllunum um stjórnmál. Ferli hennar lauk í dag þegar hún sagði af sér og baðst afsökunar á því að láta hafa eftir sér í maí að „Ísraelar ættu að drulla sér úr úr Palestínu."
Heiðurssæti hennar fyrir miðju á fremsta bekk í fjölmiðlaherbergi Hvíta hússins var autt í dag og vakti brotthvarf hennar mikla athygli enda á enginn annar fjölmiðlamaður eins langan feril að baki í Hvíta húsinu.
Ummæli hennar féllu á sérstakri hátíð gyðinga í Hvíta húsinu þann 27. maí. Thomas var spurð hvort hún hefði eitthvað um Ísrael að segja og þá svaraði hún að bragði: „Segðu þeim að drulla sér út úr Palestínu. Mundu það að þessi þjóð er hersetinn og þetta er þeirra land, ekki Þýskaland eða Pólland. Þeir geta farið heim, til Póllands, Þýskalands, Bandaríkjanna eða hvert sem er."
Talsmaður Hvíta hússins, Robert Gibbs, sagði fyrr í dag að ummæli Thomas væru móðgandi og skammarleg og hún birti afsökunarbeiðni á heimasíðu sinni, áður en hún sagði af sér.
Sama dag og ummælin umdeildu féllu lagði Thomas það sem reyndist vera síðasta spurningin hennar fyrir Bandaríkjaforseta: „Herra forseti, hvenær ætlar þú að koma okkur út úr Afganistan? Af hverju erum við enn að drepa og vera drepin þar? Hver er hin raunverulega afsökun? Og ekki svara mér með einhverju Bush-bulli, að ef við förum ekki þangað komi þeir hingað."
Thomas vann til fjölda blaðamannaverðlauna á löngum ferli. Hún hóf störf í Hvíta húsinu árið 1960.