Sjóher Ísraels skaut fjóra Palestínumenn til bana þar sem þeir voru við köfun úti fyrir ströndum Gaza. Samkvæmt því sem fram kemur í opinberri tilkynningu frá Ísraelsher töldu yfirmenn hersins að kafararnir væru að undirbúa hryðjuverkaárás.
Að sögn talsmanna Hamas á Gaza hafa fjögur lík fundist, en tveggja manna er enn saknað.
Drápin eiga sér stað aðeins viku eftir að níu aðgerðarsinnar, sem studdu málstað Palestínu, voru drepnir í árás Ísraelshers á skipalest sem siglt var á leið til Gaza með hjálpargögn.
Ísraelar ráða yfir hafsvæðinu undan ströndum Gaza þrátt fyrir hafa dregið herlið sitt út af svæðinu árið 2005.
Fram kemur í ísraelskum fjölmiðlum að kafararnir hafi verið um borð í litlum bát á norðurleið í áttina að Ísrael frá ströndum Nuseirat-flóttamannabúðanna í Gaza. Tekið er fram að Ísraelar hafi notað þyrlu við aðgerðir sínar. Haft er eftir varnarmálaráðherra Ísraels, að enginn Ísraeli hafi meiðst í aðgerðinni.
Enn þykir hins vegar margt óljóst um tildrög atburða. Fréttaskýrendur segja tiltölulega algengt að ísraelski sjóherinn skjóti á fiskibáta á svæðinu þyki mönnum þeir fara of langt frá landi.