Veggjakrotari í Singapúr bíður dóms

Veggjakrot vekur yfirleitt litla hrifningu yfirvalda. Myndin tengist efni fréttarinnar …
Veggjakrot vekur yfirleitt litla hrifningu yfirvalda. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. mbl.is/Jim Smart

Svissneskum viðskiptafræðingi, sem sakaður hefur verið um skemmdarverk í Singapúr, hefur verið sleppt úr haldi lögreglunnar gegn tryggingu. Maðurinn, sem sakaður er um að hafa málað á neðanjarðarlestir með úðabrúsa, bíður nú réttarhalda en hann gæti átt yfir höfði sér bæði fangelsisvist og opinbera hýðingu verði hann fundinn sekur.

Maðurinn þurfti að leggja fram 71 þúsund Bandaríkjadala tryggingu sem samsvarar rúmlega 9 milljónum íslenskra króna. Við handtökuna var hald lagt á vegabréfið hans í því skyni að koma í veg fyrir að hann gæti komið sér undan refsingu með því að yfirgefa landið. Lögin í Singapore taka mjög hart á skemmdarverkum, en hámarksrefsing við slíku er þriggja ára fangelsisvist, 2.000 Bandaríkjadala sekt og átta vandarhögg.

Maðurinn, sem er á fertugsaldri, er hátt settur ráðgjafi hjá upplýsingatæknifyrirtæki í Singapore. Samkvæmt því sem fram kemur í fjölmiðlum landsins mun maðurinn ekki hafa staðið einn að skemmdarverkunum. Leiddar eru að því getgátum að hann hafi í samfloti við aðra lagt fyrir sig veggjarkrot í neðanjarðarlestakerfum víðs vegar um heim. Mál mannsins verður dómtekið síðar í þessum mánuði.






mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert