Forstjóri þýska flugfélagsins Lufthansa, Wolfgang Mayrhuber, telur að Evrópusambandið eigi að greiða flugfélögum bætur vegna tap þeirra þegar lofthelgi flestra ríkja í Evrópu lokaðist vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.
„Við viljum engar niðurgreiðslur en við viljum bætur þar sem við vorum sett í flugbann án þess að það væri nauðsynlegt," sagði Mayrhuber á blaðamannafundi sem Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, stóð fyrir í Berlín í dag.
Hætta varð við um 100 þúsund flugferðir í apríl eftir að flugmálayfirvöld í Evrópu lokuðu lofthelgi álfunnar vegna ótta um að aska frá eldgosinu gæti eyðilagt hreyfla flugvélanna.
Tap flugfélaganna er metið á 1,8 milljarða Bandaríkjadala, yfir 320 milljarða króna.