Vona að launahækkun komi í veg fyrir sjálfsvíg

Reuters

Forsvarsmenn taívanska tölvufyrirtækisins Foxconn hafa ákveðið að hækka umtalsvert laun starfsmanna sinna í kínversku borginni Shenzhen í von um að þannig megi draga úr fjölda sjálfsvíga í hópi launþega. Fréttaskýrendur telja miklar líkur til þess að launahækkanirnar geti leitt til hækkana lægstu launa í tölvuiðnaðnum almennt. 

Starfsmenn Foxconn vinna við að setja saman vörur fyrir fyrirtæki á borð við Apple, Dell og Nokia. Forsvarsmenn fyrirtækisins hyggjast hækka mánaðarlaun starfsmanna sem vinna við færibandið frá og með 1. október nk. um 70%, en launin nema eftir hækkun um 290 Bandaríkjadölum sem samsvarar rúmlega 37.400 ísl. kr. Aðeins er vika síðan launin voru umsvifalaust hækkuð um 30%.

„Launahækkunin þýðir að margir starfsmenn munu hafa raunhæft val um að minnka við sig yfirvinnu,“ segir í yfirlýsingu Foxconn, en gagnrýnendur höfðu ítrekað bent á að starfsmenn hefðu ekki val um annað en að vinna óhóflega yfirvinnu til þess að hafa í sig og á.

Yfirlýsing fyrirtækisins kemur í kjölfar fjölda sjálfsmorða starfsmanna fyrirtækisins í verksmiðju þess í Shenzhen. Sjálfsmorðin leiddu til rannsóknar á vinnuskilyrðum starfsmanna og leiddi hún í ljós að skilyrðin væru ömurleg og vinnudagurinn óhóflega langur. Þessar upplýsingar ollu því að blásið var til mótmæla bæði í Hong Kong og Taiwan.

Að minnsta kosti tíu starfsmenn Foxconn í Shenzhen hafa það sem af er ári valið að svipta sig lífi með því að kasta sér út um glugga verksmiðjunnar. Einnig hafa borist fréttir af fleirum starfsmönnum sem svipt hafa sig lífi eða dáið af ofþreytu.

„Launahækkunin mun segja þrýsting á önnur fyrirtæki sem grætt hafa á ódýru vinnuafli í Kína. Vonandi er tími ódýrs vinnuafls í Kína senn á enda,“ segir Mars Hsu sérfræðingur hjá Grand Cathay Securities. Hann áætlar að boðuð launahækkun hjá Foxconn muni hækka mánaðarlegan framleiðslukostnað Hon Hai, móðurfyrirtækis Foxconn, um 60 milljónir bandaríkjadali. Það samsvarar um þriðjungi af hagnaði Hon Hai.

Terry Gou, stofnandi Foxconn og einn þekktasti viðskiptajöfur Taívans, hefur látið hafa eftir sér að með launahækkuninni sé ætlunin að standa vörð um sjálfsvirðingu starfsmanna fyrirtækisins.

„Við göngumst við ábyrgð okkar þar sem við erum leiðandi á heimsvísu í framleiðslu rafmagnstækja og við tökum ábyrgð okkar mjög alvarlega,“ sagði hann í yfirlýsingu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert