Sérstakt bankaútibú fyrir konur var opnað í borginni Mashhad í Íran í gær, mánudag. Útibúið tilheyrir Bank Melli, sem er í eigu Íranska ríkisins. Allt starfsfólk bankans er kvenkyns, þar á meðal öryggisverðirnir.
„Tilgangurinn er að ýta undir siðsamt líferni og gera þátttöku múslímskra, íranskra kvenna, í þjóðfélaginu, öruggari,“ segir Mahmoud Reza Khavari, bankastjóri Bank Melli.
Írönsk yfirvöld og klerkar hafa lengi vel verið alfarið á móti því að kynin blandi geði á opinberum vettvangi. Aðskilnaður kynjanna er við lýði í nokkrum háskólum þar í landi og kvenfólk situr jafnan aftast í strætisvögnum.
Nokkrir almenningsgarðar, sem eru eingöngu ætlaðir konum, hafa verið opnaðir víða um landið upp á síðkastið. Þá hafa nokkur leigubílafyrirtæki einnig verið starfrækt nýlega, sem eingöngu þjóna konum og ráða konur til vinnu.
Íranar hafa tekið þessari þróun misvel. Einhverjir hafa stutt þessar nýjungar en aðrir spyrja sig hvort aðskilnaður kynjanna geti leyst þjóðfélagslega vanda Írans.