Sænska olíufélagið Lundin Petroleum og samsteypan sem það er hluti af áttu aðild að stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu í Súdan. Þessu er haldið fram í nýrri skýrslu mannréttindasamtaka. Samkvæmt skýrslunni voru glæpirnir framdir á árunum 1997 til 2003, en þá voru um tíu þúsund manns drepnir og nær 200 þúsund reknir frá heimilum sínum í suðurhluta landsins.
Súdanskir hermenn í samstarfi við skæruliðaheri réðust á íbúa á svæðum þar sem olíu var að finna og ráku þá burt. Að sögn eins af höfundum skýrslunnar, Egbert Wasserlink, kom Lundin Petroleum ekki með beinum hætti að glæpunum heldur greiddi foringjum í súdanska hernum fyrir að fremja þá.
„Niðurstöður okkar eru þær að Lundin hafi stuðlað að stríðsástandi á svæðinu en ekki friði og framþróun eins og þeir halda sjálfir fram,“ sagði Wasserlink.
Talsmenn Lundin Pertroleum hafa neitað ásökununum og sagt að skýrslan innihaldi engar sannanir fyrir þeim.