Barack Obama hefur lofað því að Bandaríkjamenn muni leggja Palestínumönnum til 400 milljóna dala aðstoð. Nemur upphæðin tæpum 52 milljörðum íslenskra króna. Gaf hann loforðið eftir að hafa fundað með Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, í Hvíta húsinu í gær. Fénu verður veitt til aðstoðar á Gaza-ströndinni og Vesturbakkanum.
Frá þessu greinir Al Jazeera í dag.
Obama segist trúa því að ná megi árangri í friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs og kvað kominn tíma til að halda áfram úr þeirri blindgötu sem málin séu í núna.
„Það er kominn tími fyrir okkur að taka af skarið, halda áfram í átt að tveggja ríkja lausn [e. two-state solution],“ sagði Obama. Abbas sagði loforð Obama um aðstoð vera jákvæð og endurtók áskorun sína á Ísraelsmenn að binda enda á herkvína á Gaza-svæðinu.
Sendiherra Ísraels í Bandaríkjunum, Michael Oren, varði herkvína og sagði hana nauðsynlega til að tryggja öryggi Ísraelsríkis og einnig Egyptalands. Þá væri hún friðarferlinu mikilvæg.
Herkvíin hefur staðið síðan árið 2007 þegar Hamas tók við völdum á svæðinu. Ísraelar halda því fram að hún sé nauðsynleg til að hindra vopnasmygl um svæðið.