Færeyingar eru æfir út í Lene Espersen, utanríkisráðherra Danmerkur, vegna þess að hún hyggst styðja málamiðlunartillögu um að leyfa aftur hvalveiðar í atvinnuskyni í takmörkuðum mæli. Tillagan verður borin upp á fundi Alþjóða hvalveiðiráðsins sem hefst í Marokkó eftir 10 daga.
Verði tillagan samþykkt mun hún þýða að Færeyingar fá ekki að veiða stórhveli næstu 10 árin. Það fá aðeins þau lönd sem veiða stórhveli nú. Færeyska landsstjórnin hefur ekki heimilað veiðar á þeim í næstum aldarfjórðung, en breið samtaða er um það endurheimta réttinn til að veiða stórhveli sem lið í sjálfbærum veiðum landsins.
Jörgen Niclasen, sem fer með utanríkismál í landstjórninni hefur beðið Dani um að sitja frekar hjá en greiða atkvæði gegn hagsmunum Færeyinga. Er Espersen gagnrýnd harðlega fyrir að láta hagsmuni ESB hafa forgang umfram hagsmuni Færeyinga og Grænlendinga.
Málið gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir dönsku stjórnina haldi Espersen fast við sinn keip. Þannig hefur Edmund Joensen, einn þingmanna Færeyinga á danska þinginu sem í dag tilheyrir þinghópi Venstre, hótað því að hann muni hætta að veita stjórninni sjálfkrafa stuðning sinn. Láti hann verða af hótunum sínum hefur ríkisstjórnin ekki lengur meirihluta á þinginu.
„Ég hyggst ekki misnota aðstöðu mína, en ég hyggst beita mér af fremsta megni. Ég er sannfærður um að ríkisstjórnin átti sig á því að atkvæði mitt getur skipt sköpum,“ segir hefur Jyllands-Posten eftir Joensen.
Høgni Høydal, þingmaður færeyska þingsins, er ævareiður Espersen og sakar ráðherrann um að sýna af sér frámunalegan hroka. „Við höfum greinilega ekki vit á því hvað er best fyrir okkur,“ segir hann.
Bæði Joensen og Høydal voru hrifnari af stjórnunarstíl og áherslum Pers Stig Møller, fyrrverandi utanríkisráðherra. „Það var ávallt mín tilfinning að Per Stig Møller hlustaði á okkur þegar við áttum við hann viðræður. En við verðum að viðurkenna að nýr ráðherra hefur allt annan stíl,“ segir Edmund Joensen.
Lene Espersen hefur harmað uppákomuna. „Ég dreg ekki dul á það að Færeyingar eru reiðir og vonsviknir. Vandi minn felst í því að ég get ekki komið til móts við óskir þeirra um hvalveiðar. Það er ekki meirihluti fyrir sjónarmiðum þeirra innan Alþjóða hvalveiðiráðsins.“