Flest bendir til að flokkur sem kallast Nýja flæmska fylkingin hafi sigrað í belgísku þingkosningunum. Fyrstu tölur benda til að flokkurinn hafi fengið 30 þingmenn og sé stærsti flokkurinn á þingi. Flokkurinn vill kljúfa sig frá franska hluta Belgíu.
Mikil óeining er í belgískum stjórnmálum. Um eitt ár tók að mynda þá ríkisstjórn sem nú situr í landinu. Raunveruleg hætta er talin á því að landið klofni. Finnst mörgum einkennilegt að land sem hýsir höfuðstöðvar Evrópusambandsins skuli vera við það að leysast upp. Belgar eiga að taka við formennsku í ESB í júlí.
150 þingmenn sitja á belgíska þinginu og benda fyrstu tölur að flokkur flæmskra aðskilnaðarsinna verði stærsti flokkurinn á þinginu með 30 þingmenn.
Flokkur franskra sósíalista er spáð 26 sætum sem myndi þýða að hann bætti við sig sex sætum. Niðurstöður kosninganna þýða að fjórir flokkar verða að ná saman til að hægt sé að mynda meirihlutastjórn.
Ekki er nóg með að pólitísk kreppa sé í landinu. Belgíska ríkið er þriðja skuldugasta ríki í Evrópu, næst á eftir Grikklandi og Ítalíu. Ríkissjóður er rekinn með halla og atvinnuleysi í landinu hefur vaxið mikið.