Bandarískir vísindamenn hafa leitt í ljós að verðmæti málma í jörðu í Afganistan nemur einum billjarði (milljón miljónum) Bandaríkjadala eða tæplega 128 biljörðum íslenskra króna. Er þetta langtum meira en áður var talið.
Frá þessu sagði talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna í dag og kvað að vísbendingar væru um að enn frekari jarðauðlindir væri að finna í Afganistan. Meðal þeirra málma sem finnast þar í jörð eru litíum, járn, gull, kvikasilfur og kóbalt.
Forseti Afganistan, Hamid Karzai, sagði í janúar að auðlindirnar gætu hjálpað landinu, sem er eitt það fátækasta í heimi, að verða eitt þeirra ríkustu. Þá voru aðeins fyrir hendi frumniðurstöður rannsóknanna.
Ráðherra námumála í Afganistan segir að auðlindir í jörðu muni leika „stórkostlegt“ hlutverk í efnahagslegum vexti landsins.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að magn litíums í jörðu í Afganistan gæti verið jafnmikið og í Bólivíu en þar í jörð er að finna mesta litíumforða sem vitað er um í heiminum. Litíum er léttur málmur og meðal annars notaður í rafhlöður fyrir síma og tölvur.
Þá er nógu mikið járn og kopar í landinu til að gera það að einum stærsta framleiðanda málmanna í heimi.
Lítið hefur gengið á málmana þar sem landið hefur verið stríðshrjáð sleitulítið síðustu þrjátíu ár. Rannsóknirnar eru hluti af aðstoð Bandaríkjamanna við að byggja upp iðnað í Afganistan.