Um fimmtíu grænfriðungar sem brutust inn í Forsmark-kjarnorkuverið skammt frá Uppsölum í Svíþjóð í dag hafa verið handteknir. Þeir höfðu krafist þess að sænska þingið hafnaði því að byggð yrðu fleiri kjarnorkuver í landinu. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve margir mótmælendur voru teknir höndum en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa allir mótmælendur á staðnum náðst.
Samkvæmt upplýsingum frá sænsku lögreglunni voru þrír færðir í gæsluvarðhald grunaðir um meiriháttar húsbrot og að hafa brotið gegn sænskum öryggislögum. Meðal hinna handteknnu eru sænskir, þýskir, norskir, franskir og pólskir ríkisborgarar.
Samtök grænfriðunga sendu frá sér tilkynningu fyrr í dag um að þrjátíu mann hópur myndi fara inn í verið til friðsamlegra mótmæla gegn áætlunum stjórnvalda um frekari kjarnorkuframleiðslu í Svíþjóð. Kosið verður um málið á sænska þinginu á fimmtudag. Hugðust grænfriðungarnir vera í Forsmark-verinu fram að atkvæðagreiðslunni teldu þeir þess þurfa.
Tíu virkir kjarnakljúfar í þremur verum eru í Svíþjóð.