Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Hollands, segir að það sé fáránlegt að tvær konur hafi verið handteknar í Suður-Afríku vegna markaðsbrellu. Málið snýst um 36 konur sem gengu í appelsínugulum pilsum, sem voru merkt hollensku ölgerðinni Bavaria, á knattspyrnuleik Dana og Hollendinga í fyrradag.
Tvær hollenskar konur, sem eru sagðar hafa skipulagt markaðsherferðina, voru handteknar í dag.
Í yfirlýsingu segir Verhagen að suður-afrísk yfirvöld hafi gengið of langt með því að handtaka konurnar og ákæra þær.
„Það er fáránlegt að konurnar tvær eigi fangelsisdóm yfir höfði sér fyrir að hafa gengið í appelsínugulum pilsum á knattspyrnuvelli,“ segir hann.
„Vilji Suður-Afríka eða FIFA grípa til aðgerða gegn fyrirtæki fyrir ólögmæta markaðsherferð, þá eiga þau að hefja mál á hendur fyrirtækinu en ekki gegn venjulegum borgurum sem ganga um í appelsínugulum pilsum.“