Viktoría krónprinsessa Svía gengur í dag að eiga Daníel Westling í athöfn sem fer fram í Stórkirkjunni í Stokkhólmi. Mikið er um dýrðir í höfuðborg Svíþjóðar og öryggisgæsla mikil í tilefni dagsins. Athöfnin hófst klukkan 13:30 að íslenskum tíma. Hér má fylgjast með athöfninni.
Westling er 36 ára gamall fyrrum einkaþjálfari Viktoríu, sem er 32 ára.
Rúmlega 1.200 gestir munu taka þátt í hátíðarhöldunum, þar á meðal Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff forsetafrú og evrópskar konungsfjölskyldur.
Daníel og Viktoría, sem kynntust árið 2002, munu að athöfn lokinni aka um miðborg Stokkhólms í hestavagni. Þá munu þau sigla um í sama bát og foreldrar Viktoríu, þau Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning, gerðu á þessum degi árið 1976. Báturinn mun sigla með þau að Drottningahólmi, sænsku konungshöllinni, þar sem brúðkaupsveislan fer fram.
Þetta er fyrsta konunglega brúðkaupið í Svíþjóð í 34 ár.
Um 6.000 hermenn og 2.000 lögreglumenn standa vaktina í Stokkhólmi í dag.