„Það er verið að njósna um okkur“

Silvio Berlusconi.
Silvio Berlusconi. Reuters

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, sagði í dag að símtöl hefðu verið hleruð hjá um 10 milljónum Ítala. Ummæli hans koma fram í myndskeiði þar sem hann kvartar sáran undan því sem hann kallar hlerunarmenningu á Ítalíu, sem eigi sér engin fordæmi í heiminum. Berlusconi vill leggja fram umdeilt frumvarp sem takmarkar símhleranir og vill með þessu kalla eftir stuðningi.

Berlusconi segist hafa tölur undir höndum sem sýni fram á að 150.000 símar á Ítalíu hafi verið hleraðir. Hann heldur því fram að ef hvert og eitt símtæki hafi verið notað til að hringja í 50 mismunandi einstaklinga þá geti verið að símtöl hjá um sjö og hálfri milljón manna hafi verið hleruð. Sú tala gæti auðveldlega verið 10 milljónir.

„Vandamálið er alvarlegt. Það er verið að njósna um okkur,“ sagði Berlusconi myndskeiði sem var tekið upp fyrir lýðræðissamtök sem er heyra undir stjórnmálasamtök ráðherrans, sem kallast Il Popolo della Libertà eða Frelsi fyrir fólkið.

Berlusconi gagnrýndi það sem hann segir að sé kerfisbundin símhlerun og umfjöllun um það sem hlerað sé í dagblöðum og í sjónvarpi.

Fyrr í þessum mánuði hafði Berlusconi sigur á ítalska þinginu þegar það samþykkti lagafrumvarp sem dregur úr notkun símhlerana. Andstæðingar hans segja að tilgangur laganna sé að fá menn til að þegja. Raunverulegur tilgangur þeirra sé að vernda Berlusconi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert