Seðlabankastjóri Evrópusambandsins, Jean-Claude Trichet, segir í viðtali við þýska dagblaðið Die Welt að efnahagsvandræði evrusvæðisins skrifist fyrst og fremst á reikning Þjóðverja og Frakka. Ríkisstjórnir landanna hafi stuðlað að skuldavanda svæðisins með því að reka mjög slaka efnahagsstefnu og m.a. ítrekað brotið gegn stöðugleikasáttmála þess sem kveður á um að fjárlagahalli megi ekki vera meiri en sem nemur 3% af landsframleiðslu.
Trichet gagnrýnir einnig í viðtalinu framgöngu forystumanna í bankageiranum, m.a. vegna bónusgreiðsla til yfirstjórnenda. Ljóst sé að bankarnir hefðu allir heyrt sögunni til ef þeim hefði ekki verið komið til bjargar.