Mikill niðurskurður í Bretlandi

George Osborne.
George Osborne.

George Osborne, fjármálaráðherra Breta, kynnti nú á hádegi sitt fyrsta fjárlagafrumvarp í nýrri samsteypustjórn Íhaldsmanna og Frjálslyndra demókrata í Bretlandi.  Markmið hinna svokölluðu neyðarfjárlaga er að koma efnahag landsins á réttan kjöl innan 5 ára. Það verður að mestu gert með því að skera niður opinber útgjöld auk þess sem skattar verða hækkaðir.

„Með þessum neyðarfjárlögum tökumst við á við metskuldir landsins. Við borgum núna fyrir fortíðina, og leggjum grunninn að framtíðinni," sagði Osborne þegar hann kynnti fjárlögin á þingi í dag. „Já, þetta er harkalegt, en þetta er líka sanngjarnt. Sannleikurinn er sá að Bretland lifði langt umfram getu sína þegar kreppan skall á og ef við ráðumst ekki á laun og eftirlaun, þá munu fleiri störf glatast.“

Útgjöld til velferðarmála verða skorin niður um 11 milljarða punda fyrir árin 2014-15. Það verður m.a. gert með því að frysta barnabætur í 3 ár, setja lægra þak á húsaleigubætur og herða verulega matsreglur á örorkubótum. Laun opinberra starfsmanna verða ekki hækkuð í 2 ár hið minnsta og eftirlaunaaldur verður hækkaður í 66 ár.

Framlög til flestra opinberra stofnanna verða skorin niður um allt að 25% á næstu fjórum árum, en með því sparast allt í allt um 17 milljarðar punda fyrir lok árs 2015. Greiðslur til Elísabetar II drottningar fyrir opinber störf verða frystar á þessu ári og teknar til endurskoðunar að því loknu. Virðisaukaskattur verður hækkaður úr 17,5% í 20% frá og með janúar á næsta ári.  

Búist er við því að atvinnuleysi á Bretlandi muni ná hámarki í 8,1% á þessu ári en dragast saman ár frá ári og standa í 6,1% árið 2015.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert