Stofnandi WikiLeaks, Ástralinn Julian Assange, hefur nú skotið aftur upp kollinum eftir að hafa farið huldu höfði í nokkrar vikur. Bandaríkjastjórn hefur leitað eftir því að ná tali af Assange allar vegna hans aðkomu að leka þúsunda trúnaðarskjala hersins, sem birt voru á vefsíðunni.
Assange, sem er fyrrum hakkari, segist í viðtali við Guardian ekki óttast um öryggi sitt en hann sé hinsvegar alltaf á tánum og ætli ekki til Bandaríkjanna á næstunni. Assange lét sig hverfa þegar starfsmaður bandaríska hersins í Baghdad, Bradley Manning, var handtekinn í lok síðasta mánaðar fyrir að leka trúnaðargögnum. Hann hefur verið í haldi í rúmar 3 vikur án ákæru.
Assange segir að WikiLeaks hafi ráðið þrjá bandaríska lögfræðinga til að verja Manning, en neitar því jafnframt alfarið að hafa tekið við efni frá honum. Assange og aðstandendur WikiLeaks hafa gefið það út að til standi að birta mikið af efni á næstunni, þ.á.m. fleiri myndskeið af árásum Bandaríkjahers á almenna borgara í Írak.
Assange er sagður verja löngum stundum á Íslandi, þar sem myndbandið af árás þyrlu Bandaríkjahers var unnið. Guardian leiðir að því líkum að hann hafi að miklu leyti haldið sig hér á meðan hann fór huldu höfði.