Áróðurspésar svífa til N-Kóreu

Norður-kóreskur landamæravörður á bökkum árinnar við bæinn Sinuiju.
Norður-kóreskur landamæravörður á bökkum árinnar við bæinn Sinuiju. JACKY CHEN

Suður-kóreskir og japanskir aðgerðarsinnar sendu í dag þúsundir áróðurspésa inn í Norður-Kóreu. Alls tóku um 100 aðgerðarsinnar höndum saman og slepptu 10 loftbelgjum til himins við landamærin, en í þeim  voru um 100.000 pésar.

Einn Japananna sem tók þátt var Tsutomu Nishioka, sem berst fyrir frelsi japanskra borgara í Norður-Kóreu.  Japönsk yfirvöld saka yfirvöld í Norður-Kóreu um að hafa rænt japönskum borgurum í því skyni að kenna njósnurum landsins tungumál þeirra og siði.

Með loftbelgjunum stigu til himins bæði upplýsingapésar frá baráttuhópi Nishioka en einnig pésar þar sem greint er frá þeirri trú Suður-Kóreumanna að Norðrið hafi sökkt herskipi þeirra með tundurskeyti í mars.

Sjálft varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu hefur raunar prentað 1,2 milljónir áróðurspésa til að bregðast við árás Norður-Kóreu, en áætlunum um að senda þá yfir landamærin með loftbelgjum hefur verið slegið á frest. Kóreuríkin tvö gerðu með sér samkomulag árið 2004 um að láta af opinberum áróðri, en yfirvöld N-Kóreu kvarta þó harðlega yfir því þegar borgarar S-Kóreu taka upp á því sjálfir að senda áróðurspésa yfir landamærin.  N-kóreski herinn lýsir pésunum sem „viðbjóðslegri sálfræðilegri rægingarherferð".

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert