Svisslendingurinn Oliver Fricker hefur verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir að hafa spreyjað graffití á lest í Singapore. Þá skal hann jafnframt hljóta þrjú vandarhögg í refsingarskyni. Þá er sá brotlegi sleginn í bakið eða á læri með viðarpriki.
Fricker, sem er 32 ára gamall hugbúnaðarráðgjafi, viðurkenndi að hafa brotist inn á geymslusvæði og spreyjað á lestina. Hann var handtekinn 25. maí sl. um viku eftir atvikið og tveimur dögum áður en hann átti að byrja í nýju starfi í Sviss. Dómari segir brotið hafa verið alvarlegt.
Yfirvöld í Singapore segjast enn vera að leita að öðrum manni, Bretanum Lloyd Dane Alexander, sem er talinn hafa tekið þátt í verknaðinum.
Mannréttindasamtökin Amnesty International fordæma dóminn.