Olíurisinn BP heldur í dag áfram aðgerðum sínum til að hefta olíulekann á botni Mexíkóflóa á sama tíma og Flórída neyddist til að loka vinsælum sólarströndum á háannatíma ferðaþjónustunnar vegna olíu sem berst á land.
Olían hefur þegar lagst á strendur Louisiana, Mississippi og Alabama en komi hún í miklu magni til Flórída getur það haft skelfilegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna. Flórída er einn vinsælasti ferðamannastaður heims og þangað koma árlega um 80 milljón gestir. Strandlínan er um 2.000 kílómetra löng og þar eru fjölmargar vinsælar sólarstrendur sem og einstök kóralrif auk þess sem fiskveiðar eru mikilvægur hluti efnahagsins þar.
„Það er olía bæði i sjónum og í sandinum," segir Warren Bielenberg talsmaður strandgæslu í norðvestur Flórída. Ferðamönnum er bannað a synda í sjónum allt frá ströndinni Penascola í austri að Santa Rosa eyju, en um er að ræða einhverja mest sóttu ferðamannastaði ríkisins. Yfirvöld á Flórída hafa skipulagt umfangsmikil hreinsunarstörf og ætla að reyna að grípa til aðgerða til að hefta för olíunnar að ströndum ríkisins.