Andstætt stjórnarskrá að banna byssueign

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að sömu lög og reglur eigi að gilda um byssueign í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Fimm dómarar af níu hafa úrskurðað að það sé andstætt stjórnarskrá landsins að banna byssueign í Chicago. Þar með hefur réttur ríkis og sveitarfélaga til að hafa eftirlit með byssueign verið takmarkaður.

Dómararnir segja að réttur manna til að eiga og ganga með vopn í sjálfsvarnarskyni sé varinn í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Talið er að dómurinn geti mögulega leitt til þess að lögum um byssueign verði breytt í mörgum ríkjum Bandaríkjanna.

Bandaríkjamenn hafa deilt um það í mörg ár hvað það þýði í raun og veru að fá að ganga með og eiga vopn (e. right to keep and bear arms).

Dómstóll í Washington komst að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum að það væri andstætt stjórnarskrá að leggja bann við skammbyssueign í borginni. Þeir sem hafa barist fyrir auknum byssuréttindum höfðuðu í kjölfarið mál í Chicago og í úthverfinu Oak Park í Illinois, þar sem skammbyssur hafa verið bannaðar í 30 ár.

Fréttaskýrendur segja að dómurinn sé áfall fyrir þá sem hafa reynt að draga úr byssueign í Bandaríkjunum.

Skotvopnasamtök Bandaríkjanna (NRA) hafa hins vegar fagnað úrskurðinum.

Talið er að um 90 milljónir Bandaríkjamanna eigi um 200 milljónir skotvopna.

Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert