Forsetaefni Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, Christian Wulff, tókst ekki að sigra í forsetakjöri á þinginu í dag. Um aðra umferð var að ræða. Þykir þetta enn eitt merki um hve höllum fæti ríkisstjórn Kristilegra demókrata og Frjálsra demókrata stendur. Kosið var á milli Wulff og Joachims Gauch, fyrrverandi prests sem hefur barist fyrir mannréttindum og nýtur stuðnings stjórnarandstöðunnar.
Það eru hins vegar allar líkur á að Wulff nái kjöri í þriðju umferð þar sem þá þarf einungis einfaldan meirihluta. Samkvæmt BBC er það hins vegar afar vandræðalegt fyrir Merkel að það þurfi að kjósa í þrígang og að ef Gauck yrði kjörinn þá myndi það væntanlega þýða þingkosningar.
Það að ekki tókst að knýja fram kjör Wulff í dag þýðir að ekki einu sinni allir stjórnarþingmenn hafi kosið frambjóðanda ríkisstjórnarinnar.
Þingmenn Frjálsra demókrata höfðu hótað að kjósa Bauch ef Kristilegir demókratar samþykktu að hækka skatta á hálaunafólk. Horst Köhler sagði óvænt af sér sem forseti Þýskalands vegna umdeildra ummæla um stríðið í Afganistan og Roland Koch ákvað að láta af embætti forsætisráðherra sambandslandsins Hessen.