Skipafélög virðast hafa takmarkaðan áhuga á svonefndri Norðvesturleið. Minni hafís í Norður-Íshafinu hefur ekki aukið skipaumferð um svæðið, samkvæmt kanadískri könnun, að því er grænlenska útvarpið KNR greinir frá.
Vitnað er í Fréderic Lasserre frá Laval háskólanum í Quebec en hann segir að Norðvesturleiðin verði aldrei nýr Panamaskurður. Lasserre sendi fyrirspurnir til 124 farskipaútgerða í Asíu, Evrópu og Ameríku um áhuga þeirra á siglingarleiðinni um Norður-Íshafið.
Svör bárust frá 34 skipaútgerðum en þær önnuðust samanlagt um 62% sjóflutninga á árinu 2008. Einungis ellefu skipafélög lýstu áhuga á að nýta sér Norðvesturleiðina. Flest þeirra stunda nú þegar vöruflutninga á svæðinu.