Michael O'Leary, forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair, kynnir formlega í dag hugmyndir sínar um breytt fyrirkomulag í flugvélum félagsins. Í þeim felst m.a. að rukkað verði fyrir aðgang að salernum og að stór hluti flugvélanna, sem eru í dag um 250 talsins, verði lagður undir svæði þar sem farþegar ferðast standandi.
Hugmyndin er að um eins konar lóðrétt sæti verði að ræða sem farþegar spenna sig í. Gert er ráð fyrir að um tíu sætaraðir fari í þetta rými af 25. Afgangurinn verði hefðbundin sæti. Ætlunin er að bjóða þessi "sæti" á hagstæðum kjörum eða á um fimm pund að sögn O'Leary.
Þá verður rukkað fyrir aðgang að salerni flugvélanna eins
og áður segir og verður gjaldið eitt pund fyrir hverja ferð. Vonast er til þess að það hvetji farþega til þess að
létta frekar á sér áður en þeir koma um borð í flugvélarnar.
Enn hefur þó ekki fengist samþykki flugmálayfirvalda fyrir lóðréttu sætunum en þar á bæ hafa menn miklar efasemdir um hugmyndina. Einkum snýr það að öryggi farþega, en gert er ráð fyrir því í alþjóðlegum öryggisreglum að fólk sitji við flugtak, lendingu og þegar ókyrrð er í lofti.